Ég hef skrifað um þetta áður en vegna umræðunnar að undanförnu, langar mig að gera það aftur. Núna. Mér hefur alla tíð verið meinilla við þá áráttu að kalla hagsmunaaðila til ráðgjafar og ákvarðanatöku þegar ríkið er að ráða þeim málum sem alla þjóðina varðar. Til dæmis kvótamálum. Hvers vegna í óköpunum fá LÍÚ eða fiskútflytjendur eða stéttarfélög starfsfólks í sjávarútvegi að hafa meira um það að segja en aðrir hvernig auðlind í þjóðareigu er ráðstafað? Það má kannski réttlæta aðkomu sveitarfélaga að málinu en þó varla, þar sem fjallahringir byrgja sveitarstjórnarmönnum gjarnan sýn. Sjálfur er ég skotinn í þeirri hugmynd, sem ég reyndar fékk sjálfur, að flokkur heimspekinga verði fenginn til að núllstilla þjóðfélagið okkar og setja því ný lög og nýjar reglur. En sanngjarnast væri þó að velja í svona hópa sem fjalla um einstök mál, níutíu og níu manneskjur af handahófi úr þjóðskrá og lúta svo meirihlutaniðurstöðu þeirra.