Það er með nokkrum kvíða sem ég gef út stutta skáldsögu því það er erfitt að afhjúpa sumt af því sem gerist í hugarfylgsnum manns. En ég ákvað að láta vaða og nú er Víkingasaga komin út hjá rafbókaútgáfunni Emmu . Bókin er einvörðungu seld í rafbókarformi. Þegar ég var barn, óttaðist ég ekkert meira en að eitthvað slæmt henti systkini mín, kannski vegna þess að ég er elstur í hópnum og taldi mig bera einhverja ábyrgð á þeim, sérstaklega þegar pabbi var á sjó. Þetta var svipuð tilfinning og ég fékk þegar ég varð faðir sjálfur; maður óttast ekkert meira en að eitthvað vont hendi börnin manns. Í þá daga var hugtakið einelti ekki komið inn í tungumálið; það var til eitthvað sem kallaðist "allir á móti einum" og það þótti mörgum hin mesta skemmtun, öllum nema þessum eina. Ég upplifði að vera bæði þessi eini og líka með öllum á móti honum og ég trúi að þannig hafi það verið um flesta, nema þá allra sterkustu sem aldrei voru teknir fyrir. Að minnsta kosti ekki af barnahó