Fara í aðalinnihald

Ef ég nennti að blogga

Einu sinnu nennti ég að hafa skoðanir og viðra þær á bloggi og bara hvar sem ég gat.  Sennilega hef ég ennþá einhverjar skoðanir en pólitíkin og ástandið í landinu er bara eitthvað svo sturlað að maður dofnar fyrir því og langar helst að leggjast undir sæng og bíða eftir að það líði hjá.  Það yrði reyndar löng bið því við erum Íslendingar og virðumst flest vilja hafa hlutina í fokkings vitleysu; láta ríku og freku kallana og stóru fyrirtækin hafa alla peningana í landinu vegna þess að þjóðarsálin er meðvirkur aumingi sem trúir að undirlægjuháttur skili henni því slæma lífi sem hún telur sig eiga skilið.

Þjóðarsálinni, Sögusálinni, alveg sama þótt samfélagsgerðin okkar (sem kannski hefur aldrei verið annað en blekking) hrynji; henni er alveg sama þótt innviðir samfélagsins molni bara á meðan ríku og freku kallarnir fá alla peningana okkar fyrir tilstuðlan stjórnmálamannanna sinna, stjórnmálamanna sem við kjósum sérstaklega til að framkvæma þann gjörning að færa fé frá þeim fátæku til hinna ríku.

Þjóðarsálin er ennþá þrællinn sem var pískaður og píndur af Íslendingum með ættarnöfn; barinn og sveltur af biskupum og landshöfðingjum; misnotaður af prestum og hreppstjórum.  Þjóðarsálin er enn í þessum gír og kann ekkert annað en að vera undirlægja og skriðdýr; hún horfir upp til valdsmannanna með velþóknum og nýtur þess að láta berja sig.

Nema að nú er hún ekki hálshöggvin eða henni drekkt á Þingvöllum fyrir að vera nauðgað af húsbóndanum; hún er ekki húðstrýkt fyrir snærisþjófnað eða send á Brimarhólm; hún er komin í nútímann og lætur hafa af sér það sem hún á og henni ber; hún er þræll í eigin landi hér eftir sem hingað til og þannig vill hún hafa það.

Hún vill að útgerðarmennirnir eigi allan fiskinn í sjónum, henni líður illa yfir því að fallvötnin og jarðhitinn, ferskvatnið og sjálft súrefnið í andrúmsloftinu, skuli ekki vera komin í eigu auðstéttarinnar að fullu og öllu og hún vill að spítalarnir og allt annað sem hún á verði selt lægstbjóðanda með réttu samböndin sem fyrst svo hún geti tuðað yfir því þangað til eitthvert sturlað ungstirni kemur til landsins og ríður ungfrú Íslandi í beinni. 

Eða þangað til kúgararnir koma með ómótstæðilegt tilboð fyrir næstu kosningar sem allir sjá í gegnum en af því að þetta eru þeir, þá kýs hún þá aftur þótt hún viti að þeir séu að ljúga og muni lúskra á sér aftur um leið og þeir hafa komið sér saman um það hvernig þeir ætli að rýja hana inn að skinninu eina ferðina enn.

En þá hefur hún líka eitthvað nýtt til að tuða um og allt verður gott. 


Ég nenni ekki lengur að blogga en ætla þess í stað að horfa á Bubba éta orma á Snappinu.   

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Umhverfis

Það var mun auðveldara fyrir ekkert svo löngu síðan að finna sér stað í pólitík, sumpart vegna þess að veröldin virtist einfaldari en aðallega vegna þess að ég var einfaldari.  Nú ætla ég mér ekki að halda því fram að ég sé mjög djúpur eða íhugull en einhver veginn gerist það með aldrinum að maður fer að láta sig færri hluti skipta máli og margt af því sem kveikti í mér einhverjar hugsjónaglæður fyrir nokkrum árum síðan hreyfir ekki við mér lengur. Ég held að þetta hafi breyst smám saman eftir að ég varð afi.  Þá fær maður nýja sýn á lífið; ég var "á besta aldri" þegar börnin mín voru lítil og þá var hugsunin aðallega sú að koma þeim í gegnum daginn, gegnum æskuna og út í lífið og áherslumálin voru eftir því.  Brauðstritið sumsé. Þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn var ég kominn hátt á sextugsaldur og skyndilega varð framtíð þeirra hér á Jörðinni það mikilvægasta sem ég gat ímyndað mér.  Semsé að við skiljum ekki eftir handa þeim ónýta plánetu. Og þar stendur h

Frjáls samkeppni að hætti vinstri manns

Það er þetta með hægri og vinstri í pólitík. Ég er til dæmis iðulega kallaður vinstri maður vegna þess að ég vil að samfélagið sjái öllum fyrir heilsugæslu, menntun og fleiru þeim að kostnaðarlausu og ég vil frekar greiða háa skatta og fá þá heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að draga upp kreditkortið þegar ég þarf á henni að halda. Og þar fram eftir götunum; sósíalisma kalla sumir þetta. En ég veit að til þess að geta greitt skatta, þá þarf ég að hafa vinnu og þokkaleg laun og það þýðir að einhver (jafnvel ég sjálfur) þarf að búa til starf handa mér og það helst í betri kantinum. Samt ekki hið opinbera, ef vel á að vera, þótt ég sé nú um stundir opinber starfsmaður. Alla vega ekki með því að selja erlendum auðhringjum íslenskar auðlindir á niðursettu verði. Ég aðhyllist nefnilega næstum því frjálsa samkeppni (næstum þvíiið stendur með frjálsri samkeppni hér á undan en ekki aðhyllist), það er að segja, frjálsri samkeppni sem leiðir ekki af sér einokunarrisa eins og s