Fara í aðalinnihald

Umhverfissóði

Maður á aldrei að byrja bloggfærslu með orðinu ég, og þess vegna hef ég þennan örstutta formála.

Ég er umhverfissóði og mín kynslóð og kynslóðirnar sem á undan komu og jafnvel einhverjar sem á eftir hafa komið, bera mesta ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þessari einu plánetu sem við eigum.

Við sólunduðum auðlindum Jarðarinnar án þess að hugsa okkur um og við blésum skítnum sem frá okkur kom út í loftið með þeim afleiðingum að nú er andrúmsloft Jarðarinnar að ofhitna og mannkynið í útrýmingarhættu.

Það þýðir ekki að sakast við unga fólkið í þeim efnum, skamma það fyrir símanotkun og segja því að við höfum nú gengið betur um umhverfið en þau af því við sóttum mjólk og rjóma út í búð í margnota ílátum, mjólkurbrúsum og flöskum eða saumuðum ný föt upp úr gömlum, líkt og talið er upp á einhverjum heimskulegum lista sem gamlingar dreifa um Facebook og víðar.

Við spúðum kola- og olíureyk út í loftið án umhugsunar, við sturtuðum sorpi í sjóinn, plasti þar á meðal; við létum olíu og aðra mengandi vökva renna ofan í jörðina eða út í læk ef það hentaði, við ofveiddum fiskistofana eins og enginn væri morgundagurinn og við ofbeittum sauðfé á landið án þess að leiða hugann að því hvaða afleiðingar það gæti haft.  Fleira mætti tína til en ég læt það ógert að sinni.

En auðvitað var þetta vegna þess að framan af vissum við ekki betur og við getum að einhverju leyti skýlt okkur bak við hinn hnausþykka vegg fáfræðinnar.

Ég játa sök fyrir mína hönd og annarra af minni kynslóð og þeim kynslóðum sem voru uppi milli iðnvæðingar og hennar; við erum umhverfissóðar og ættum að láta það vera að monta okkur af góðri umgengni við móður náttúru.

Ást og friður.Vinsælar færslur af þessu bloggi

Umhverfis

Það var mun auðveldara fyrir ekkert svo löngu síðan að finna sér stað í pólitík, sumpart vegna þess að veröldin virtist einfaldari en aðallega vegna þess að ég var einfaldari.  Nú ætla ég mér ekki að halda því fram að ég sé mjög djúpur eða íhugull en einhver veginn gerist það með aldrinum að maður fer að láta sig færri hluti skipta máli og margt af því sem kveikti í mér einhverjar hugsjónaglæður fyrir nokkrum árum síðan hreyfir ekki við mér lengur. Ég held að þetta hafi breyst smám saman eftir að ég varð afi.  Þá fær maður nýja sýn á lífið; ég var "á besta aldri" þegar börnin mín voru lítil og þá var hugsunin aðallega sú að koma þeim í gegnum daginn, gegnum æskuna og út í lífið og áherslumálin voru eftir því.  Brauðstritið sumsé. Þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn var ég kominn hátt á sextugsaldur og skyndilega varð framtíð þeirra hér á Jörðinni það mikilvægasta sem ég gat ímyndað mér.  Semsé að við skiljum ekki eftir handa þeim ónýta plánetu. Og þar stendur h

Frjáls samkeppni að hætti vinstri manns

Það er þetta með hægri og vinstri í pólitík. Ég er til dæmis iðulega kallaður vinstri maður vegna þess að ég vil að samfélagið sjái öllum fyrir heilsugæslu, menntun og fleiru þeim að kostnaðarlausu og ég vil frekar greiða háa skatta og fá þá heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að draga upp kreditkortið þegar ég þarf á henni að halda. Og þar fram eftir götunum; sósíalisma kalla sumir þetta. En ég veit að til þess að geta greitt skatta, þá þarf ég að hafa vinnu og þokkaleg laun og það þýðir að einhver (jafnvel ég sjálfur) þarf að búa til starf handa mér og það helst í betri kantinum. Samt ekki hið opinbera, ef vel á að vera, þótt ég sé nú um stundir opinber starfsmaður. Alla vega ekki með því að selja erlendum auðhringjum íslenskar auðlindir á niðursettu verði. Ég aðhyllist nefnilega næstum því frjálsa samkeppni (næstum þvíiið stendur með frjálsri samkeppni hér á undan en ekki aðhyllist), það er að segja, frjálsri samkeppni sem leiðir ekki af sér einokunarrisa eins og s