Róbert
Pálsson trillukarl var farinn að huga að heimferð. Það var
ekki mikil veiði þennan daginn og hann var að innbyrða tvo
miðlungs fiska sem gerðu lítið til að hífa kílóatöluna upp
undir leyfilegt hámark strandveiðibátanna. Það voru kannski
þrjúhundruð kíló komin um borð og Róbert sá fram á að þessi
róður kæmi út með tapi. Það líkaði honum illa. Hann ákvað
að renna færunum aftur á þessum sama stað því hann vissi af
langri reynslu að það þýddi lítið að vera að kippa milli
bleyða; það væri bara sóun á olíu og olían var svo sannarlega
ekki gefin þessa dagana.
Hann
sleppti sökkunni og girnið rann út af rúllunni og á skjánum
taldi mælirinn metrana sem rúlluðu út og þar með dýpið líka.
Kannski væri réttast að drífa sig í land og reyna að vera
framarlega í löndunarröðinni. Hann þurfti hvort sem er að
skreppa upp í hjall og kíkja á harðfiskinn sem þar hékk og yrði
bráðum tilbúinn til neyslu. Það stóð tæpt með að hann
myndi ná markaðnum á bæjarhátíðinni handan við fjallið um
þarnæstu helgi; helvítis rigningin tafði fyrir þurrkuninni og
hann vildi ekki þurrka inni á sumrin því rafmagnið sem fór í
það var of dýrt og kostnaðurinn myndi éta upp hagnaðinn.
Færið
snerti botn, 43,75 metrar stóð á skjánum og nú var bara að bíða
eftir að eitthvað biti á og tölvurúllan myndi hífa það upp að
borðstokknum. Hin færin tvö voru í botni líka og ekkert virtist
vera að gerast þarna niðri. Hann færi heim um leið og þau kæmu
næst upp með fisk.
Róbert
stakk hausnum inn í stýrishúsið og kveikti í vindilsstubbi sem
hafði legið á borðinu framan við rattið og hann hellti líka
kaffi úr brúsanum í glas sem var í haldara á mælaborðinu.
Hann var snyrtipinni og fór því ekki inn í blautum sjógallanum,
heldur settist í dyrakarminn undir mjóu skýlinu sem skagaði aftur
úr stýrishúsinu. Þetta er lífið, hugsaði hann; sitja hérna í
hægum veltingnum með vindil og kaffi. Verst hvað fiskaðist lítið
en í augnabikinu reyndi hann að leiða það hjá sér og njóta
stundarinnar. Hann tók smók af vindlinum. Verst hvað tóbak var
orðið andskoti dýrt.
Klukkan
var að verða tíu og róðurinn því orðinn passlega langur en
Róbert hafði siglt á Hafdísi út úr smábátahöfninni nokkrum
mínútum eftir miðnætti. Hann sá að nokkrir bátar voru lagðir
af stað í land, líklega með hálftóm kör eins og hann. Það
yrði tap á þessum róðri.
Miðjurúllan
var farin að hífa upp og þá var ekki um annað ræða en að
drepa í vindlinum og taka á móti því sem á krókunum var.
Róbert kleip glóðina varlega framan af Bagatello vafningnum og
smellti henni með fingrunum yfir borðstokkinn. Það voru nokkrir
smókar eftir í vindlinum enn svo hann lagði hann aftur á borðið,
eftir að hafa fullvissað sig um að í honum leyndist engin glóð.
Hann gat fátt hugsað sér verra en eldsvoða úti á sjó. Hann
smeygði sér í gúmmívettlingana og steig þessi tvö skref sem
voru á milli hans og rúllunnar og svo rak hann andlitið yfir
borðstokkinn til að sjá hvað væri á krókunum. Það glitti á
hvítt í djúpinu, fiskarnir veltu sér og ólmuðust í því
augnamiði að losna af króknum og stundum tókst þeim það. Það
þótti honum hábölvað; að horfa á eftir verðmætum fiski
hverfa aftur ofan í djúpið gat tekið á hann. Það kostaði
sitt að knýja tölvurúlluna.
Það
voru þrír fiskar á að þessu sinni, sýndist honum þegar þeir
nálguðust yfirborðið. Þorskur. Hann sá það á litnum.
Sigurnaglinn kom upp og rúllan hætti að snúast. Hann teygði sig
í slóðann, hallaði sér aftur og lyfti honum yfir borðstokkinn.
Einn vænn þorskur, einn lítill þorskur og mannshöfuð dingluðu
í slóðanum sem Róbert hélt á með útréttum handlegg. Hann
leit undan og lokaði augunum. Þetta gat ekki verið mannshöfuð
sem hékk þarna á neðsta króknum í slóðanum. Það gat
einfaldlega ekki verið.
Hann
sneri höfðinu, sínu eigin það er að segja, opnaði augun
varlega og renndi sjónum út eftir hægri handleggnum og niður
slóðann. Spriklandi þorskur, spriklandi þorskur, mannshöfuð.
Jú, það fór ekki á milli mála, þetta var mannshöfuð sem hékk
þarna og krókurinn var uppi í munninum á því og agnúað stóð
út í gegnum kinnina. Það var eins og höfuðið hefði bitið á
færið en auðvitað gat það ekki verið. Eða hvað? Þegar
fiskarnir á slóðanum sprikluðu, kipptist höfuðið til og
Róberti fannst það blikka sig með þessu eina auga sem eftir var
í því.
Hann
sleppti færinu og stóð sem lamaður. Hann vissi ekki hvernig hann
átti að bregðast við; í augnablikinu var hann frosinn fastur en
hann fann að skelfingin og ógleðin sem uxu innra með honum myndu
brjótast út á næstu sekúndum. Hann rak upp öskur, svo hátt að
síðar sögðu menn að það hefði heyrst alla leiðina í land,
og á eftir öskrinu kom nestið sem hann borðaði í morgun. Honum
tókst þó að snúa sér út að stjórnborðshlið Hafdísar og
æla því beint í sjóinn. Þau voru sterk, snyrtipinnagenin sem
hann hafði fengið úr báðum ættum. Hann lá þarna með
bringubeinið á borðstokknum töluverða stund og öskraði ofan í
sjóinn og ældi þar til meira að segja gallið hætti koma upp úr
honum.
Loksins
bráði af honum, svona að mestu leyti, og hann sá að hinar
rúllurnar voru líka búnar að hífa færin upp en hann þorði
ekki fyrir sitt litla líf að kíkja útaf hinum megin til að sjá
hvort einhverjir líkamspartar hefðu komið upp á færunum þar.
Þess í stað óð hann rakleiðis inn í stýrishús og lokaði á
eftir sér. Hann greip talstöðina og kallaði í hana.
„Hjálp!
Hjálp! Ég fékk haus! Ég veiddi haus! Hjálp!“ Hann sleppti
takkanum. Vaktstöð siglinga svaraði strax.
„Hver
var að kalla á hjálp?“
„Það
var ég! Hafdís SU 999! Það kom höfuð á færið hjá mér!
Ég þarf hjálp!“
„Hvar
ertu staddur?“
Róbert
las GPS punktana fyrir vaktstöðina sem brást við með því að
spyrja hvort einhverjir væru nærri þessum stað.
„Já,
Bára hérna, ég verð kominn til hans eftir tvær mínútur.“
„Hvað
segirðu Hafdís, hvernig höfuð er þetta sem þú varst að
veiða,“ spurði vaktstöðin.
„Mannshöfuð,“
svaraði Róbert. „Og það beit á krókinn. Þetta er virkilega
ógeðslegt.“
„Við
hringjum á lögregluna. Ætlar þú ekki bara að keyra í land og
hitta hana á bryggjunni?“
„Jú,
það er best,“ sagði Róbert. Hann sá að Báran var að verða
komin alveg upp að honum en hann hélt sig inni í stýrishúsinu.
Hann veifaði út um gluggann og benti í land, setti svo í gang og
rak allt í botn. Aldrei þessu vant hvarflaði ekki að honum að
passa upp á olíueyðsluna.