Fara í aðalinnihald

Frjáls samkeppni að hætti vinstri manns

Það er þetta með hægri og vinstri í pólitík. Ég er til dæmis iðulega kallaður vinstri maður vegna þess að ég vil að samfélagið sjái öllum fyrir heilsugæslu, menntun og fleiru þeim að kostnaðarlausu og ég vil frekar greiða háa skatta og fá þá heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að draga upp kreditkortið þegar ég þarf á henni að halda. Og þar fram eftir götunum; sósíalisma kalla sumir þetta.

En ég veit að til þess að geta greitt skatta, þá þarf ég að hafa vinnu og þokkaleg laun og það þýðir að einhver (jafnvel ég sjálfur) þarf að búa til starf handa mér og það helst í betri kantinum. Samt ekki hið opinbera, ef vel á að vera, þótt ég sé nú um stundir opinber starfsmaður. Alla vega ekki með því að selja erlendum auðhringjum íslenskar auðlindir á niðursettu verði.

Ég aðhyllist nefnilega næstum því frjálsa samkeppni (næstum þvíiið stendur með frjálsri samkeppni hér á undan en ekki aðhyllist), það er að segja, frjálsri samkeppni sem leiðir ekki af sér einokunarrisa eins og svokallaðir hægri menn dýrka og dá. Hvar hefur frjáls og hömlulaus samkeppni á Íslandi ekki endað í einokun, fákeppni eða ólöglegu samráði? Í flutningum? Í verslun? Í framleiðslu og sölu á landbúnaðarvörum?

Jú, ég get nefnt eitt dæmi en því miður fyrir hægri mennina, þá vorum það við, helvítis kommónistarnir, sem komum því á. Ég er að tala um strandveiðar á smábátum því það var vonda vinstri stjórnin sem hleypti þeim blauta frjálshyggjudraumi af stokkunum.

Þar ríkir nefnilega næstum því frjáls samkeppni því innbyggðir varnaglar í kerfinu koma í veg fyrir að útgerðir sameinist eða að til verði risar sem smám saman (eða hratt) eignast öll veiðileyfi fyrir smábáta í landinu. Einn bátur á kennitölu og eigandi verður að róa á bátnum sem má koma með visst magn af fiski á land tiltekna daga ársins. Samkeppnin snýst semsé um að veiða sem mest úr sameiginlegum potti og fá svo hæsta verðið fyrir fiskinn á markaði en það er eitur í beinum hægri manna. Það má svo deila um magnið og dagafjöldan en í grunninn er kerfið gott og þar getur duglegt fólk haft sæmilegar tekjur fyrir sig og sína.

Það væri alveg tilvalið að hafa þetta til fyrirmyndar þegar við einhvern tímann stokkum upp þjóðfélagið eftir að hafa hrist af okkur alla spillinguna og þjófana því svona samkeppni innan vissra marka, þar sem enginn verður ofurríkur en allir geta haft það gott ef þeir passa sig og eru duglegir. Ókey, það hafa ekki allir trillukarlar það gott og sumir fara á hausinn en það er ljóta hliðin á samkeppni.

Til dæmis gætum við hugsað okkur að enginn mætti eiga stærri hlutdeild en 1% í neinni starfsemi í landinu nema hún sé svo sérhæfð og sjaldgæf að hún rúmi ekki marga innan sinna marka, og að séð verði til þess að krosseignatengsl og baktjaldablokkir verði ekki til.


Svona eru blautir samkeppnisdraumar miðjuspilandi vinstrimanna. Líklega er þetta þó kommónismi.

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Umhverfis

Það var mun auðveldara fyrir ekkert svo löngu síðan að finna sér stað í pólitík, sumpart vegna þess að veröldin virtist einfaldari en aðallega vegna þess að ég var einfaldari.  Nú ætla ég mér ekki að halda því fram að ég sé mjög djúpur eða íhugull en einhver veginn gerist það með aldrinum að maður fer að láta sig færri hluti skipta máli og margt af því sem kveikti í mér einhverjar hugsjónaglæður fyrir nokkrum árum síðan hreyfir ekki við mér lengur. Ég held að þetta hafi breyst smám saman eftir að ég varð afi.  Þá fær maður nýja sýn á lífið; ég var "á besta aldri" þegar börnin mín voru lítil og þá var hugsunin aðallega sú að koma þeim í gegnum daginn, gegnum æskuna og út í lífið og áherslumálin voru eftir því.  Brauðstritið sumsé. Þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn var ég kominn hátt á sextugsaldur og skyndilega varð framtíð þeirra hér á Jörðinni það mikilvægasta sem ég gat ímyndað mér.  Semsé að við skiljum ekki eftir handa þeim ónýta plánetu. Og þar stendur h