Fara í aðalinnihald

Loddarar

Úrslit Brexit kosninganna í Bretlandi munu hafa meiri áhrif á líf okkar og tilveru en niðurstaða forsetakjörsins hér heima í gær. Þetta segi ég ekki verðandi forseta til hnjóðs heldur vegna hins félagslega og efnahagslega umróts sem þegar er hafið í Bretlandi og mun ef ekkert er að gert, eotra langt út fyrir strendur Bretlands og hafa ófyrirséðar afleiðingar hér og annarsstaðar.

Stóru flokkarnir þar í landi þar gætu liðast í sundur á næstu dögum eða vikum, mánuðum kannski, því enginn veit hvernig á að leysa þau vandamál sum upp eru komin. Það er ekkert plan og það viðurkenna allir sem að málinu koma. Meira að segja loddararnir sem leiddu Breta þangað sem eru nú komnir.

En hvers vegna gerist það að fólk kýs að hleypa landinu í bál og brand?

Það gerðist vegna þess að því var logið í fólk að allt yrði betra og nær öll vandamál bresks samfélags myndu hverfa eins og dögg fyrir sólu, bara ef landið losnaði undan ægivaldi hins alvonda ESB, þegar staðreyndin er sú að það eru fyrst og fremst innlendir auðræningjar sem eru að hirða lífsakomuna af fólkinu. Og þá er það næsta spurning: Hvers vegna trúði fólk þessu (og trúir eflaust enn, vel flest)?

Ég held að það sé vegna þess að fólk er komið með nóg af því sem við köllum hefðbundin stjórnmál; það tengir ekki lengur við stjórnmálamenn sem það sér eins og elítu sem hefur skapað sér sjálfstætt líf utan venjulegs samfélags, með réttu eða röngu.

Fólki finnst það vera vanmáttugt gagnvart valdinu í viðkomandi landi, hvort sem það er stjórnmálavaldið eða peningavaldið; reyndar fer þetta tvennt ansi oft saman og þegar snjallir lygarar stíga fram á sviðið og boða lausn á öllum vanda er fjandinn laus.

Við sáum þetta í síðustu alþingiskosningum hérna. Sigmundur Davíð lofaði kjósendum að sækja 300 milljarða króna til þeirra sem hann kallaði hrægamma og færa þá fólkinu í landinu í formi skuldaniðurfellinga sem áttu þá að vera skaðabætur fyrir Hrunið. Hann vann stóran sigur út á það en þegar á hólminn var komið, sótti hann 60 milljarða í ríkissjóð og dreifði til þeirra sem ekki þurftu á því að halda og reyndist svo sjálfur vera einn hrægammanna. Sjaldan hefur nokkur maður verið með stærra bitfar á rassinum eftir Körmu frænku.

Það er nefnilega þannig hérna á Íslandi líka að það eru fyrst og fremst íslensk auðstétt sem er að ræana okkur þeim lífskjörum sem við gætum svo hæglega haft hérna ef við deildum auðæfum landsins á sanngjarnari hátt en nú er gert en einhvern veginn tekst þessum ríksibubbum að telja stórum hluta kjósenda trú um að þeir séu ekki aflögufærir um neitt og meira að segja er svo langt gengið núna að ríkissjóður stendur undir kjarasamningum útgerðarmanna við sjómenn með skattalækkunum.

Þess vegna verða vandaðir stjórnmálamenn að taka sér tak, hætta að tala pólitísku og fara að tala við kjósendur á tungumáli sem þeir skilja og takast á við lýðskrumarana af hörku þegar þeir fara að skjóta upp kollinum fyrir næstu alþingiskosningar sem verða innan skamms og berja þá niður jafnóðum og þeir birtast.


Ekki viljum við kjósa fleiri loddara yfir okkur, er það nokkuð?

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Umhverfis

Það var mun auðveldara fyrir ekkert svo löngu síðan að finna sér stað í pólitík, sumpart vegna þess að veröldin virtist einfaldari en aðallega vegna þess að ég var einfaldari.  Nú ætla ég mér ekki að halda því fram að ég sé mjög djúpur eða íhugull en einhver veginn gerist það með aldrinum að maður fer að láta sig færri hluti skipta máli og margt af því sem kveikti í mér einhverjar hugsjónaglæður fyrir nokkrum árum síðan hreyfir ekki við mér lengur. Ég held að þetta hafi breyst smám saman eftir að ég varð afi.  Þá fær maður nýja sýn á lífið; ég var "á besta aldri" þegar börnin mín voru lítil og þá var hugsunin aðallega sú að koma þeim í gegnum daginn, gegnum æskuna og út í lífið og áherslumálin voru eftir því.  Brauðstritið sumsé. Þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn var ég kominn hátt á sextugsaldur og skyndilega varð framtíð þeirra hér á Jörðinni það mikilvægasta sem ég gat ímyndað mér.  Semsé að við skiljum ekki eftir handa þeim ónýta plánetu. Og þar stendur h

Frjáls samkeppni að hætti vinstri manns

Það er þetta með hægri og vinstri í pólitík. Ég er til dæmis iðulega kallaður vinstri maður vegna þess að ég vil að samfélagið sjái öllum fyrir heilsugæslu, menntun og fleiru þeim að kostnaðarlausu og ég vil frekar greiða háa skatta og fá þá heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að draga upp kreditkortið þegar ég þarf á henni að halda. Og þar fram eftir götunum; sósíalisma kalla sumir þetta. En ég veit að til þess að geta greitt skatta, þá þarf ég að hafa vinnu og þokkaleg laun og það þýðir að einhver (jafnvel ég sjálfur) þarf að búa til starf handa mér og það helst í betri kantinum. Samt ekki hið opinbera, ef vel á að vera, þótt ég sé nú um stundir opinber starfsmaður. Alla vega ekki með því að selja erlendum auðhringjum íslenskar auðlindir á niðursettu verði. Ég aðhyllist nefnilega næstum því frjálsa samkeppni (næstum þvíiið stendur með frjálsri samkeppni hér á undan en ekki aðhyllist), það er að segja, frjálsri samkeppni sem leiðir ekki af sér einokunarrisa eins og s