![]() |
Ég held að þetta hafi breyst smám saman eftir að ég varð afi. Þá fær maður nýja sýn á lífið; ég var "á besta aldri" þegar börnin mín voru lítil og þá var hugsunin aðallega sú að koma þeim í gegnum daginn, gegnum æskuna og út í lífið og áherslumálin voru eftir því. Brauðstritið sumsé.
Þegar barnabörnin fóru að koma í heiminn var ég kominn hátt á sextugsaldur og skyndilega varð framtíð þeirra hér á Jörðinni það mikilvægasta sem ég gat ímyndað mér. Semsé að við skiljum ekki eftir handa þeim ónýta plánetu.
Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Mér finnst ég ekki gera nóg (bara næstum því ekki neitt) til þess að ganga hægar um vistkerfi Jarðarinnar. Ég ek allt of mikið, ég borða það sem mig langar í, ég kaupi óþarfa drasl sem er framleitt hinum megin á hnettinum og ég bregð mér til Reykjavíkur eða jafnvel útlanda stöku sinnum með flugvél. Sótspor mitt er stórt.
Þar með erum við komin aftur að pólitíkinni. Mér finnst vanta stjórnmálafl sem setur umhverfismálin á oddinn, afl sem rær að því öllum árum að við drögum úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda því mér sýnist loftslagsbreytingarnar vera helsta ógnin við örugga framtíð afkomenda okkar allra. Enginn flokkur hefur hátt um þessi mál lengur og sá flokkur sem hafði einna hæst, er nú komin í faðm Íhaldsins en þar má ekki segja orð um skítafýluna sem leggur af handakrikum þess.
Það er örugglega erfitt að halda úti græningjaflokki í landi þar sem tuttugu og fimm prósent íbúanna vilja ekki trúa því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og öðrum eins fjölda finnst allt of mikið gert úr loftslagsvánni. Sennilega myndi þessu fólki finnast allt of mikið úr því gert ef það migi og skiti án afláts í heita pottinn minn og ég færi að benda því að svona ætti það nú ekki að gera. Um eitthvað slíkt snúast aflátsbréf Landsvirkjunar; við tökum drulluna á okkur ef þú borgar fyrir það.
Að lokum þetta: Eftir tvær vikur fer ég kannski á fund hjá stjórnmálaflokknum sem ég tilheyri enn og þar gæti ég átt það til að minnast á umhvefismál og hlera hvað aðrir þar hafa að segja um þau. En eins og ég sagði í upphafi þá hafa dofnað all verulega í mér allir pólitískir eldar svo kannski fer ég ekki neitt og held bara kjafti. Það minnkar alla vega sótsporið mitt um hálft númer eða svo.